• Letter Þ
  7
 • Letter Ú
  4
 • Letter V
  5
 • Letter A
  1
 • Letter N
  1
 • Letter N
  1
 • Letter S
  1
 • Letter T
  2

Skemmtu þér með Explo
— orðaleik án hávaða

Betri orðaleikur er borinn:
Við kynnum Explo

Krossgátu-leikur fyrir nútímann. Verandi sjálf skraflnördar var sýn okkar þegar við lögðum af stað í Explo-verkefnið að smíða nútímalega, rólega og fallega útgáfu af hinum sígilda krossgátu-leik. Engar truflanir, auglýsingar, sprettigluggar eða annar sjónrænn hávaði — bara hrein einbeiting og tær skemmtun.

Árangurinn er Explo, nýtt og spennandi orðaleiks-app. Spilaðu gegn vinum, andstæðingum annars staðar á hnettinum, eða þrautseigum þjörkum. Spilaðu í rólegheitum, eða með klukku og skammti af adrenalíni. Safnaðu Elo-stigum og skaraðu framúr, eða njóttu ferðalagsins og sjáðu hvert það leiðir þig.

Nútímalegri og skemmtilegri:
Nýjungar í Explo

Explo kynnir til sögu nýtt og betra leikborð. Það endurspeglar að krossgátur vinda sig yfirleitt niður og til hægri, fremur en upp og til vinstri. Borðið er samhverft um skálínu í stað þess að hverfast um miðjuna. Byrjunarreiturinn er í efri vinstri fjórðungi, þ.e. reitur D4, í stað þess að vera á miðju borði. Viðureignir verða þannig opnari og flæða betur.

Þá hefur stafapokinn fyrir ensku fengið sömu meðferð og íslenski skraflpokinn fékk á sínum tíma. Við keyrðum hundruð þúsunda viðureigna í gegn um tölvuhermi til að reikna út besta mögulega pokann. Niðurstaðan er að allir stafir staldra álíka lengi við í rekka leikmanns, að meðaltali. Að auki getur handahófskenndur dráttur 7 stafaflísa úr poka Explo myndað 25% fleiri gild orð en sams konar dráttur úr hefðbundna enska stafapokanum.

Ókeypis að spila, auðvelt að kaupa: Áskrift er allt sem þarf

Explo má hala niður og spila ókeypis — með engum auglýsingum. Ef þér líkar við leikinn, geturðu gerst áskrifandi gegn lágu mánaðarlegu gjaldi. Áskrifendur njóta eftirfarandi ávinnings:

 • Hafa nánast ótakmarkaðan fjölda viðureigna í gangi samtímis.
 • Geta farið yfir viðureignir sem lokið er og séð bestu leiki í hverri stöðu.
 • Geta skorað á aðra leikmenn í keppnisham þar sem orð eru véfengd handvirkt. (Venjulega er gildi orða kannað sjálfkrafa og sýnt jafnóðum.)

Eins og allt í sambandi við Explo er einfalt og auðvelt að gerast áskrifandi. Engir gimsteinar eða aukapakkar eða aðrar flækjur sem þarf að kaupa eða hafa áhyggjur af — bara tær orðaleikja-skemmtun, án truflana og hávaða.

Spilað fyrir góðan málstað:
Styðjum íslenskuna á stafrænni öld

Útgefandi Explo er Miðeind ehf., sprotafyrirtæki sem sérhæfir sig í máltækni og gervigreind fyrir íslensku. Tekjur af Explo hjálpa okkur að þróa lausnir og þjónustu sem styðja og efla íslenska tungu á tímum stafrænna umbreytinga.

Eftir því sem stafræn tækni verður samofnari daglegu lífi, fjölgar áskorunum fyrir minni tungumál heimsins. Þjónustur sem er auðvelt að nálgast fyrir stærstu tungumálin, svo sem stafrænir aðstoðarmenn, vélþýðingar, skjátextun og málrýni, þarf að þróa einnig fyrir minni málin. Þannig haldast þau lifandi og í takti við tímann, auk þess sem staðinn er vörður um þá menningararfleifð sem öll tungumál fela í sér.

Tungumál okkar, höfunda Explo, er íslenska — ein af minnstu þjóðtungum heims. Lausnirnar sem við vinnum að — ef til vill með stuðningi þínum — geta vonandi einnig hjálpað öðrum minni tungumálum að lifa og dafna á stafrænni öld.

Miðeind logo

Vilhjálmur Þorsteinsson, stofnandi Miðeindar og tvöfaldur Íslandsmeistari í skrafli.